Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur verið valinn maður ársins fimmtánda árið í röð, að því er rússneskan fréttaveitan Interfax greinir frá og fjallað er um í Business Insider .

1.500 manns í 43 héröðum Rússlands voru spurðir um val sitt á manni ársins og hlaut forsetinn 68% atkvæðanna. Næsti maður á eftir fékk 4% en það var Vladimír Zhirinovsky, leiðtogi þjóðernisflokksins LDPR. 3% nefndu Sergei Lavrov utanríkisráðherra og 2% nefndu Dmitry Medvedev forsætisráðherra. Það var Public Opinion Foundation sem gerði könnunina. Ekki er sagt frá því hvenær könnunin var gerð. Vinsældir forsetans jukust mikið eftir innlimun Rússlands á Krímskaga. Efnahagslíf Rússlands stendur hins vegar mjög höllum fæti um þessar mundir.

Ríkisfjölmiðillinn RT (Russia Today) segir þessa staðfestingu almennings á stóru hlutverki Pútíns í lífi landsmanna enn ótvíræðari í ljósi þess að einnig hafi verið spurt hver meðal vísindamanna og listamanna ætti titil af þessu tagi skilinn. 75% aðspurðra höfðu ekki svar við þeirri spurningu. Í byrjun desember sagði fjölmiðlafulltrúi Pútíns, Dmitry Peskov, að vinsældir forsetans endurspegluðu ást Rússa á Rússlandi.