Vladimir Pútín varði í gær umdeild lög um frjáls félagasamtök, sem sett hafa verið í Rússlandi og sagði að gerðar hafi verið breytingar á lögunum í kjölfar gagnrýni sem þau hafa orðið fyrir. Ýmis félagasamtök hafa varað við því að löggjöfin geti orðið til þess að þau þurfi að hætta starfsemi. Forsetinn talaði á ráðstefnu sem á sátu meðlimum mannréttindahópa, tíu dögum áður en leiðtogafundur átta helstu iðnríkja heims fer fram í Rússlandi.

Í löggjöfinni er kveðið á um að sett verði á laggirnar ný stofnun sem hafa mun það hlutverk að hafa umsjón með öllum frjálsum félagasamtökum í landinu, en þau eru á fimmta hundrað þúsund. Þá verður yfirvöldum gert kleift að banna fjármögnun félagasamtaka verði þau fundin sek um að ógna þjóðaröryggi landsins eða siðgæði. Ennfremur munu útlend og innlend samtök þurfa að gefa upp í smáatriðum hvernig þau eru fjármögnuð og hvernig þau ráðstafa fjármunum sínum.

Pútín sagði á samkomunni að stjórnvöld hefðu svarað þeirri gagnrýni sem þau hefðu orðið fyrir af hendi félagasamtakanna sem og erlendra ríkisstjórna, með því að senda æðstu embættismenn sína til Strassborgar þar sem leitað var eftir ráðleggingum frá Evrópuráðinu.

"Allar uppástungur ráðsins koma fyrir í breyttu frumvarpi," sagði Pútín en vildi ekki gefa upp um hvers konar breytingar væri að ræða. Hann sagði einnig að saga Rússlands hefði í för með sér að þróun í lýðræðisátt væri hægari. Ólíkt því sem gerist í öðrum löndum, sagði hann að "Rússneskt samfélag hefði ekki haft mikinn tíma til að koma á fót stofnunum borgaralegs samfélags á eðlilegan máta. Því er það rökrétt að rússnesk stjórnvöld leitist við að styðja við lýðræðisþróun á almennan máta."

Á meðan Pútín ávarpaði samkomuna stóðu sex manns upp, allir klæddir í svarta stuttermaboli sem á stóð "Segið nei við kjarnorkuverum." Umhverfisverndunarhópurinn Ekozashchita, tilkynnti síðar að uppákoman hafi verið ætluð til þess að mótmæla áformum Pútíns um að auka rafmagnsframleiðslu með kjarnorku í landinu.

"Leyfum fólki að gera það sem það vill. Við skulum ekki ónáða það," sagði Pútin. "Það er okkur ánægjuefni að sjá ykkur. Leyfum þeim að standa þarna í tvo tíma ef þau vilja," sagði Ella Panfilova, tengiliður stjórnvalda við frjáls félagasamtök. Hópurinn mótmælti óáreittur í fimm mínútur á meðan Pútín ávarpaði samkomuna, en settist að lokum niður. Gagnrýnisraddir hafa verið uppi um að lögin séu hluti af áformum stjórnvalda í Kreml um að stemma stigu við mótþróa, sérílagi fyrir þingkosningarnar á næsta ári og forsetakosningarnar 2008.