Rússland mun krefjast þess að „óvinaþjóðir“ greiði fyrir jarðgas í rúblum að sögn Vladímír Pútíns. Verð á framvirkum samningum fyrir jarðgas í Evrópu hækkaði um fimmtung í kjölfarið en áhyggjur eru uppi um að krafan geri orkukrísuna í Evrópu enn verri. Þá hefur rúblan styrkst í kjölfar tilkynningarinnar. Bloomberg greinir frá.

„Ég hef tekið ákvörðun um að taka við rúblum sem greiðslu fyrir sölu á jarðgasinu okkar til svokallaðra óvinaríkja,“ sagði Pútín á fundi með embættismönnum í dag, samkvæmt fundargerð sem birt var á heimasíðu Kremlin. „Hættum að nota gjaldmiðla, sem eiga undir högg að sækja, í slíkum viðskiptum,“ sagði hann og bætti við að lítið vit væri í að taka við dölum og evrum fyrir útflutning.

Pútín hefur skipað rússneska seðlabankanum að þróa greiðslufyrirkomulag fyrir greiðslur af þessum toga á innan við viku, samkvæmt fundargerðinni.

Sjá einnig: Erlendar skuldir verði greiddar í rúblum

Samskiptafulltrúi ríkisolíufyrirtækisins Gazprom neitaði að tjá sig um hvort langtímasamningar um gasbirgðir heimila að greitt sé í öðrum gjaldmiðli. Um 58% af erlendri sölu Gazprom voru í evrum á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og 39% voru í Bandaríkjadölum.

„Á sama tíma vill ég ítreka að Rússland mun tvímælalaust halda áfram að útvega jarðgas í takt við magn, verð og verðskilmála (e. pricing mechanisms) sem kveðið er á um í núgildandi samningum,“ er jafnframt haft eftir Pútín.

Á fyrstu fimmtán dögum marsmánaðar flutti Gazprom út að meðaltali um 500 milljónir rúmmetra af jarðgasi á dag til þjóða sem tilheyrðu ekki gömlu Sovétríkjunum. Þar af fóru að meðaltali um 384 milljónir rúmmetra til Evrópu, samkvæmt gögnum frá fyrirtækinu.

Rússland birti fyrr í mánuðunum lista yfir 48 óvinaþjóðir, þar á meðal Bandaríkin, öll aðildarríki Evrópusambandsins, Sviss, Noreg, Japan og Ísland.