Skiptastjórar þrotabús Lehman Brothers í Evrópu hafa varað við því að það kunni að taka allt að áratug að slíta með öllu starfssemi bankans í Evrópu.

Eins og kunnugt er varð bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers gjaldþrota á þessum degi fyrir ári síðan. Bankinn hafði fram að því minnkað starfsemi sína í Evrópu að nokkru leyti og við fall hans störfuðu um 4.000 manns hjá bankanum í Evrópu en höfðu verið tæp 9.000 hálfu öðru ári áður.

Fréttavefur BBC greindi frá því í gær að þrátt fyrir mikla fækkun starfsmanna í Evrópu hafi starfsemi bankans þó enn verið töluverð og því kunni að taka allt að áratug að slíta starfseminni að fullu.

Það er PricewaterhouseCoopers (PWC) sem fer með málefni slitanna. BBC hefur eftir Tony Lomas, starfsmanni PWC að hér sé um að ræða stærsta og flóknasta mál sem hann hafi nokkurn tíma unnið við. Hann telur þó að gengið verði frá flestum atriðum á næstu 30 -36 mánuðum en engu að síður muni taka mörg ár að ganga frá restinni.

Hingað til hefur tekist að endurheimta um 5,5 milljarða Sterlingspunda úr þrotabúinu en Lomas telur að enn séu milljarðar punda sem eigi eftir að endurheimta.

PWC er nú með um 200 manns í vinnu bara við það eitt að slíta starfsemi Lehman Brothers í Evrópu en ásamt þeim starfa um 400 fyrrverandi starfsmenn Lehman með endurskoðunarfyrirtækinu.

Gert er ráð fyrir því að kröfur á hendur móðurfélaginu, Lehman Brothers í New York, muni nema allt að 140 milljörðum dala eða 84 milljörðum punda. Hvort kröfurnar verða að lokum svo háar veltur á því hvað gjaldþrotadómsstólar samþykkja af kröfunum.

Í frétt BBC kemur fram að þar er einnig gert ráð fyrir um 8 milljörðum dala sem hafi verið „kippt“ frá Evrópu til Bandaríkjanna tveimur dögum áður en bankinn varð gjaldþrota í Bandaríkjunum. [Viðbót: Sumir halda því fram að vegna þessa miklu fjármagnsflutninga hafi bresk stjórnvöld ákveðið að beita ákvæðum hryðjuverkalaga gegn íslenskum fyrirtækjum til að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig.]