PricewaterhouseCoopers hafnar málatilbúnaði og þeim einhliða staðhæfingum sem koma fram í stefnu slitastjórnar Landsbankans sem birt var þann 7. mars síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í dag.

Þar kemur fram að hlutverk PwC sem endurskoðanda bankans var að láta í té álit á ársreikningum og ályktanir um árshlutauppgjör en ekki gerð reikningsskila eða að taka þátt í ákvarðanatöku hjá bankanum. Því er hafnað að PwC hafi neitað að afhenda gögn vegna endurskoðunar á ársreikningum. Félagið segist ætla að taka til varna og svara þeim rangfærslum og ávirðingum sem fram koma í stefnunni á réttum vettvangi.

Slitastjórn Landsbankans fer fram á tæplega 100 milljarða króna í skaðabætur vegna tjóns sem fyrirtækið á að hafa valdið bankanum fyrir hrun. Um þetta er fjallað á vef RÚV. Í stefnunni kemur fram að endurskoðendur eigi að hafa valdið tjóni með athöfnum sínum, athafnaleysi og rangri ráðgjöf.