PricewaterhouseCoopers á Íslandi hafnar þeim málatilbúnaði sem fram kemur í stefnum slitastjórna Landsbankans og Glitnis á hendur félaginu. Í tilkynningu frá PwC segir að staðhæfingar, sem í stefnunum koma fram um að PwC hafi brugðist starfsskyldum sínum, séu einhliða og er þeim hafnað.

Tilkynningin í heild sinni:

Vegnar umfjöllunar í fjölmiðlum undafarna daga um stefnur slitastjórna Landsbanka Íslands hf. og Glitnis hf á hendur PricewaterhouseCoopers ehf. (PwC) vill félagið taka fram að það hafnar alfarið þeim málatilbúnaði sem fram kemur í stefnunum og þeim einhliða staðhæfingum sem þar koma fram um að PwC hafi brugðist starfsskyldum sínum í vinnu sinni fyrir bankana.

Hlutverk PwC sem endurskoðanda bankanna var að láta í té álit á ársreikningum og ályktanir um árshlutauppgjör. Í því fólst umsögn um það hvort reikningsskilin, sem unnin voru af stjórnendum bankanna og lögð fram á ábyrgð þeirra, hafi verið í samræmi við lög og alþjóðlegar reikningsskilareglur. Niðurstöður PwC tóku mið af þeim upplýsingum sem endurskoðendur PwC öfluðu sér og höfðu aðgang að á þeim tíma þegar vinna þeirra fór fram.

Endurskoðendur PwC komu ekki að gerð reikningsskila eða ákvarðanatöku hjá bönkunum. Það er mat PwC og lögmanna félagsins að málshöfðanir þessar standist ekki skoðun. Félagið mun taka til varna og svara þeim rangfærslum og ávirðingum sem fram koma í stefnunum á réttum vettvangi.