PricewaterhouseCoopers hf. (PwC) hefur fest kaup á starfsemi ráðgjafarfyrirtækisins ParX og hefur stór hluti starfsmanna þegar hafið störf á ráðgjafasviði PwC. ParX hefur verið rekið undir samstæðu Nýherja. Í tilkynningu kemur fram að með þessu móti er viðskiptavinum ParX tryggð áframhaldandi sérfræðiþjónusta auk þess sem þjónustuframboð PwC eykst umtalsvert og félagið treystir sig í sessi sem eitt öflugasta ráðgjafarfyrirtæki landsins.

Fyrirtækjaráðgjöf PwC er öflug eining sérfræðinga sem veitir fyrirtækjum, samtökum og opinberum stofnunum fjölbreytta ráðgjafaþjónustu.  Sérstaklega er vert að nefna endurskipulagningu fyrirtækja  en ljóst er að mörg íslensk fyrirtæki fara um þessar mundir í gegnum gagngera uppstokkun til að takast á við breytta tíma segir í tilkynningu.

PricewaterhouseCoopers hf. á sér rætur í íslensku viðskiptalífi allt frá árinu 1924 og hélt því upp á 85 ára afmæli sitt á nýliðnu ári.  Starfsmenn fyrirtækisins eru um 150 talsins.

Alþjóðleg samstæða fyrirtækja PricewaterhouseCoopers veitir þjónustu á sviði endurskoðunar, skatta- og lögfræðiráðgjafar og fyrirtækjaráðgjafar, með sérhæfingu viðfangsefna og atvinnugreina að leiðarljósi. Markmið PwC er að skapa traust og mynda virðisauka fyrir viðskiptavini sína og viðskiptaaðila þeirra. Yfir 163.000 manns í 151 landi starfa innan PricewaterhouseCoopers samstæðunnar.