Endurskoðendafyrirtækið PwC hefur opnað útibú í Grundarfirði en fyrir er Deloitte með útibú í bænum. Skrifstofa PwC opnaði í Grundarfirði um miðjan maímánuð og er fyrsta útibú PwC á Vesturlandi. Þetta kemur fram í frétt í Skessuhorni.

Helga Hjálmrós Bjarnadóttir er í forsvari fyrir PwC á Vesturlandi og hefur hún unnið á skrifstofu félagsins í Reykjavík í sex ár. Helga er löggiltur endurskoðandi en hún hlaut löggildinu í janúar síðastliðnum.

Helga segir PwC bjóða upp á margskonar þjónustu t.d. á sviði endurskoðunar og reikningsskila. "Fyrst um sinn mun ég sinna mínum verkefnum í fjarvinnu en vonandi með tíð og tíma munu þau verkefni skiptast út fyrir verkefni á svæðinu," segir Helga í samtali við Skessuhorn.