Fjármálarannsóknarteymi á vegum PricewaterhouseCoopers (PWC) hefur verið ráðið til að gera úttekt á athöfnum og gjörningum fyrrum stjórnenda og stjórnarmanna í Byr Sparisjóði, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Teymið hefur þegar hafið störf við að samkeyra gögn og fara yfir það sem átti sér stað í sjóðnum fyrir bankahrun og mánuðina eftir það.

Verður í anda Kroll

Rannsóknin verður að svipuðu meiði og rannsókn fjármálarannsóknarfyrirtækisins Kroll á Glitni fyrir hrun. Sú rannsókn hefur þegar skilað því að slitastjórn Glitnis hefur höfðað vel á annan tug skaðabóta- eða riftunarmála. Þeirra stærst er 250 milljarða króna skaðabótakrafa á Jón Ásgeir Jóhannesson, sex aðra einstaklinga og PWC á Íslandi. Það mál er rekið fyrir dómstólum í New York.

Kröfuhafar verða eigendur

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að kröfuhafar Byrs muni taka yfir Byr hf., hlutafélags sem reist var á grunni Byrs Sparisjóðs, á næstu einni til tveimur vikum. Vinna í þá átt hefur staðið yfir í nokkra mánuði. Stofnefnahagsreikningur fyrir Byr hf. liggur fyrir en hefur ekki verið birtur opinberlega. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun hann sýna fram á að eignir bankans verði allt að 160 milljarðar króna. _____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .