Arion banki hefur það nú í sinni hendi hver verða örlög Giftar fjárfestingarfélags ehf. sem stofnað var á sumarmánuðum 2007 utan um eignir og skuldbindingar Samvinnutrygginga. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa skilanefnd Glitnis og Landsbankinn þegar samþykkt nauðasamning fyrir sitt leyti en Arion banki, sem er stærsti kröfuhafi félagsins, hefur ekki samþykkt hann fyrir sitt leyti. Meðal þess sem deilt er um er krafa sem sett hefur verið fram, m.a. af Kristni Hallgrímssyni hrl., um skaðleysisyfirlýsingu og ábyrgðarleysi stjórnenda og stjórnarmanna í Gift á málum félagsins, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Kristinn hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samvinnutryggingar um margra ára skeið. Í slitastjórn Giftar, sem nú hefur formlega lokið störfum, voru auk Kristins Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri KPMG, og Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS í Skagafirði, en hann var lengi vel formaður stjórnar Giftar. Hann sagði sig úr stjórninni 3. mars 2008.

PWC rannsakar

Slitastjórn Kaupþings, sem fer með 87% eignarhlut í Arion banka, hefur látið tvo sérfræðinga PWC rannsaka málefni Kaupþings er snúa að Gift. Þar ekki síst lánveitingar til félagsins í tengslum við hlutabréfakaup í desember 2007, þegar Gift tók rúmlega 20 milljarða að láni hjá Kaupþingi til þess að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum. Samtals var um að ræða rúmlega þriggja prósenta hlut á þessum tíma en fjárfestingarfélagið Gnúpur hafði áður átt bréfin. Gift var jafnframt eigandi meira en 5 prósenta hlutafjár í Existu, sem síðan átti fjórðung í Kaupþingi. Stöðug staða Giftar var því afar mikilvæg Kaupþingi.

Samkvæmt lánasamningum var vörslureikningur Giftar tekinn að veði fyrir lánunum auk hlutabréfa í Kaupþingi. Af þessum 20 milljörðum voru 4,2 milljarðar án nokkurra veða samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.