PricewaterhouseCoopers (PwC) á Íslandi sætir ekki lögreglurannsókn eins og sakir standa. Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að frumrannsókn hafi átt sér stað og að hún geti leitt til formlegrar lögreglurannsóknar þegar fram líða stundir. Viðskiptablaðið greindi frá því í desember síðastliðnum að norskir og franskir sérfræðingar hafi verið fengnir til að vinna skýrslur um starfsemi Glitnis og Landsbankans fyrir hrun, en PwC var endurskoðandi beggja bankanna.

Skýrslurnar voru unnar af fyrirtækjunum Cofisys og Lynx Advokatfirma. Þær byggðu á gögnum sem aflað hafði verið við húsleit sérstaks saksóknara hjá PwC í október 2009. Í þeim kom fram sú niðurstaða að miklar blekkingar hefðu verið settar fram í bókhaldi bankanna, að hvorki Landsbankinn né Glitnir hafi uppfyllt skilyrði Fjármálaeftirlitsins (FME) fyrir starfsleyfi í árslok 2007 og að PwC hafi sýnt af sér vanrækslu í starfi sínu sem ytri endurskoðandi bankanna tveggja.

Fengu ekki fylgigögn

Forsvarsmenn PwC neituðu ásökunum og sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðust ætla að birta samantekt um skýrslur norsku og frönsku endurskoðendanna. Áður en birting slíkrar samantektar væri möguleg þyrfti PwC þó að fá aðgang að fylgigögnum skýrslnanna sem óskað hafði verið eftir skriflega.

Reynir Vignir, framkvæmdastjóri hjá PwC, segir að embætti sérstaks saksóknara hafi þó ekki viljað veita þeim aðgang að fylgigögnunum þar sem fyrirtækið væri ekki aðili máls. „Í bréfi til saksóknarans fórum við fram á að fá afhent þau gögn sem lágu til grundvallar vinnu skýrslnanna. Þeirri beiðni var hafnað af því að við sætum ekki lögreglurannsókn.“ Reynir staðfestir þó að PwC hafi fengið eintök af skýrslum frönsku og norsku endurskoðendanna í ljósi þeirrar ótímabæru umræðu sem varð í fjölmiðlum um þau.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.