Endurskoðendafyrirtækið PricewaterhouseCoopers í Bretlandi hefur verið sektað um 1,4 milljónir punda, jafnvirði tæpra 270 milljóna íslenskra króna. Endurskoðendafyrirtækinu er gefið að sök að hafa horft fram hjá rangri bókhaldsfærslu hjá bandaríska fjárfestingarbankanum JP Morgan sem skráði fjármuni viðskiptavinar síns sem sína eigin.

Breska fjármálaeftirlitið, FSA, hefur að sama skapi sektað JP Morgan um 33 milljónir punda, jafnvirði 6,3 milljarða króna.

Samkvæmt umfjöllun breska útvarpsins, BBC, vísuðu stjórnendur PwC því á bug að þeir hefðu brugðist, þvert á móti sögðu þeir JP Morgan hafa fylgt lögum og reglum.

Breska fjármálaeftirlitið var ekki á sama máli. Engu að síður var niðurstaðan sú að þótt brot PwC teldist mjög alvarlegt þá var sektargreiðslan lækkuð úr tveimur milljónum punda niður í 1,4 milljónir þar sem stjórnendur fyrirtækisins þóttu hafa sýnt samtarfsvilja við rannsókn málsins.