Rekstur PricewaterhouseCoopers ehf. batnaði ekkert milli ára, en félagið skilaði 9,2 milljóna króna hagnaði á rekstrarárinu sem lauk 30. júní 2012, en skilaði 10,3 milljóna króna hagnaði árið á undan. Velta dróst saman um 5,7% milli ára og nam 1.449,1 milljónum króna í fyrra. Á móti kemur að rekstrarkostnaður dróst saman um nær sama hlutfall, eða um 5,6% og nam 1.424,3 milljónum króna. Launakostnaður dróst þar af saman um rúmar 82 milljónir króna, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá áður hefur hluthöfum félagsins fækkað á síðustu árum. Voru þeir t.d. 21 talsins 30. júní 2011, en voru orðnir 18 ári seinna.

Ekki er hægt að bera PwC alfarið saman við hin stóru endurskoðunarfyrirtækin tvö því þau eru ekki öll jafnstór. Velta KPMG var t.d. um 3.773 milljónir á síðasta rekstrarári og velta Deloitte var 3.078,8 milljónir. PwC er því um helmingi minna en Deloitte ef miðað er við veltu. Þegar haft er í huga að Deloitte skilaði þó um 208 milljóna króna hagnaði í fyrra og hagnaður KPMG var um 356 milljónir er hagnaður PwC þó í lægri kantinum hvernig sem á það er litið.

Lægra eiginfjárhlutfall

Þá er eiginfjárhlutfall PwC líka lægra en hjá hinum fyrirtækjunum tveimur, eða um 8,5%. Hlutfallið er hins vegar 14,9% hjá Deloitte og 37,4% hjá KPMG. Í fyrra var greiddur út arður upp á 9,5 milljónir króna vegna hagnaðar ársins á undan, en ekki liggur fyrir ákvörðun um arðgreiðslu vegna síðasta árs.

Það sem helst skýrir þessa afkomu PwC eru líkega málaferli milli endurskoðunarfyrirtækisins og slitastjórna gömlu bankanna, sem hófust þegar Glitnir höfðaði mál á hendur PwC fyrir bandarískum dómstólum árið 2010. Því máli var á endanum vísað frá dómi, en kostnaður vegna málsvarnar PwC hleypur á tugum milljóna króna. PwC hefur gert kröfu í þrotabú Glitnis til að fá málskostnaðinn endurgreiddan og er það mál til meðferðar fyrir héraðsdómi.

Þá hafa slitastjórnir Glitnis og Landsbankans stefnt félaginu til greiðslu skaðabóta vegna vinnu félagsins fyrir bankana fyrir hrun. Þessi mál eru umfangsmikil og málskostnaðurinn setur sitt strik í reikninga PwC.