PricewaterhouseCoopers ehf (PwC) ætlar að birta samantekt um skýrslur fyrirtækjanna Cofisys og Lynx Advokatfirma sem fjalla um endurskoðaða ársreikninga Landsbankans og Glitnis fyrir árið 2007 þegar búið verðu að fara í gegn um skýrslurnar. PwC hafi enn ekki fengið aðgang að fylgigögnum þeirra. Þetta sé óhjákvæmilegt í ljósi þess að fjallað hafi verið um þessi gögn í fjölmiðlum. Verður fjölmiðlum veittar upplýsingar um endurskoðun á bönkunum eins og framest er unnt samkvæmt lögum.

„Ljóst er að skýrslurnar eru ófullgerð vinnugögn enda margtaka skýrsluhöfundar fram að ályktanir þeirra séu dregnar með verulegum fyrirvörum og þurfi að sannreyna frekar. Sérstaklega er varað við því að niðurstöður þeirra séu lagðar til grundvallar frekari rannsókn án þess að fram fari nánari athugun á forsendum. Ekki hefur í öllum tilvikum verið hirt um að halda fyrirvörum Cofisys og Lynx Advokatfirma til haga í umfjöllun fjölmiðla, enda þótt þau séu lykilatriði í málinu og geti breytt því í grundvallaratriðum þegar skýringa hefur verið leitað hjá stjórnendum viðkomandi banka eða endurskoðendum þeirra," segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Höfðu takmarkað aðgengi

„Viðurkennt er að skýrsluhöfundar höfðu takmarkað aðgengi að gögnum og skoðuðu meðal annars ekki frumgögn úr bönkunum sjálfum. Fram kemur að þeim hafi ekki verið heimilað að hafa samband við stjórnendur bankanna eða endurskoðendur. Þá er ekki tekið tillit til þess að í vinnuskjölum PwC liggja m.a. fyrir skriflegar staðfestingar frá stjórnendum og stjórnarmönnum bankanna um ýmis atriði er snerta mat á stöðu þeirra, enda hefur ekkert verið rætt við starfsfólk PwC af hálfu rannsóknaraðila," segir í tilkynningu.

Stjórnendur ábyrgir

„PwC minnir á að það eru stjórnendur bankanna, þ.m.t. stjórnir og bankaráð, sem bera ábyrgð á uppgjörum þeirra. Sú ábyrgð er bæði lagaleg og samfélagsleg. Stjórnendur leggja ársreikninga fram og gefa út viðamiklar skriflegar staðfestingar til enduskoðenda um réttmæti upplýsinga. Slíkar yfirlýsingar, ásamt öðrum endurskoðunargögnum, liggja fyrir í vinnuskjölum PwC og verða lagðar fram á réttum vettvangi.

PwC telur sjálfsagt og eðlilegt að uppgjör bankanna, sem féllu haustið 2008, og endurskoðun á þeim komi til skoðunar eins og önnur atriði er tengjast bankahruninu. Jafn sjálfsagt er að öll málsmeðferð í því sambandi sé vönduð og hafin yfir vafa" segir í tilkynningu.