*

þriðjudagur, 21. september 2021
Erlent 31. mars 2015 14:19

Pyntaður og myrtur af rússneska ríkinu

Sergei Magnitskí reyndi að afhjúpa svikamyllu rússneska ríkisins, en hlaut í þess í stað hrottaleg örlög.

Bjarni Ólafsson

Bill Browder byggði upp stærsta fjárfestingarsjóð Rússlands, var vísað úr landi af öryggisástæðum og horfði upp á félaga sinn myrtan af lögreglumönnum. Sá hét Sergei Magnitskí en Browder fékk hann til að rannsaka og afhjúpa framgöngu rússneska ríkisins gagnvart sér og fyrirtæki hans Hermitage Capital Management, sem var einn stærsti fjárfestingarsjóður landsins um tíma.

Segir Browder meðal annars að eftir að hann hafi skapað sér óvild rússneskra ráðamanna hafi eignarhald Hermitage verið fært með svikum yfir á aðra menn sem hafi búið til falskar skuldir hjá félaginu. Með því móti hafi þeir breytt hagnaði fyrirtækisins árin á undan í tap og kröfðust endurgreiðslu skatta, en þannig fengu þeir 230 milljónir dala frá rússneska ríkinu.

Handtekinn og myrtur

„Ég stóð á þessum tíma í þeirri trú að Pútin væri þjóðernissinni og að hann myndi ekki sætta sig við 230 milljóna dala skattsvik. En það sem gerðist var að Sergei var handtekinn og myrtur eftir ellefu mánuði í rússnesku fangelsi.“

Hann segir að nokkuð mikið sé vitað um fangelsisvist Magnitskí vegna þess að meðan á fangelsisvistinni stóð skrifaði hann 450 kærur þar sem hann fór ítarlega yfir aðstæður sínar og hvernig brotið var á honum.

„Stjórn Pútins er sérstök að því leyti að þar fer saman vanhæfni og skriffinnska. Þetta á reyndar rætur sínar að rekja aftur til Sovétríkjanna, en þýðir í raun að það þykir í lagi að brjóta lögin, en það verður að fylgja reglum. Ein reglan er sú að fangar mega senda kærur, sem eru varðveittar, en þeim er aldrei sinnt.“

Hlaut skelfilega meðferð

Browder segir meðferðina á Magnitskí hafa verið skelfilega.

„Fyrst var hann í klefa með fjórtán öðrum föngum en aðeins átta rúmum. Ljósin voru kveikt allan sólarhringinn. Svo var hann fluttur í óhitaðan klefa með opnum glugga í desember og þaðan í klefa með engu salerni, heldur aðeins holu þaðan sem skólpið sullaðist upp. Alltaf var reynt að fá hann til að skrifa undir játningu. Hann veiktist mjög illa eftir sex mánuði í fangelsi, fékk gallsteina og brisbólgu. Hann átti að fara í gallsteinaaðgerð þann 1. ágúst 2009 en þess í stað var hann fluttur í eitt hættulegasta fangelsi Rússlands, þar sem engin heilbrigðisaðstaða er. Heilsu hans var í engu sinnt, en þegar hann var orðinn mjög veikur var hann fluttur í annað fangelsi þar sem átti að sinna honum. Þar var hann hins vegar hlekkjaður við rúm og pyntaður og barinn til dauða af öryggislögreglumönnum. Sergei var mjög greindur ungur maður með sterka réttlætiskennd og dauði hans hafði mikil áhrif á mig.“

Browder segir að örlög Magnitskí hafi sannfært sig um að hann ætti ekki að hætta baráttu sinni þótt hann hefði ekki lengur fjárhagslegra hagsmuna að gæta í Rússlandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.