„Hér hefur verið gríðarleg uppbygging á innviðum svona almennt, bæði Eldheimar, svo er sundlaugin með því besta sem gerist á landinu og svo er næg náttúra til að skoða. Síðan erum við með söfnin Sagnheima og Sæheima,“ segir Páll Marvin Jónsson, forstöðumaður ferðamála hjá þekkingarsetri Vestmannaeyja.

Björgunarmiðstöð fyrir pysjur

„Bærinn er með þessa þriggja heima sýn, Eldheimar, Sagnheimar og Sæheimar. Eldheimar eru þá eldfjöllin, Sagnheimar er þá eiginlega byggðasafnið, sagan þá annað en eldgosið 1973, og síðan erum við með eina fiskasafnið á landinu. Þar erum við náttúrulega með lifandi fiska og krabba og annað sem endurspeglar náttúruna hérna í kring,“ segir Páll Marvin, sem segir fiskasafnið vera eiginlega orðin hálfgerð björgunarmiðstöð í dag.

„Sérstaklega nú á þessum árstíma þegar haustið er að skella á. Þá er hér allt að fyllast af pysjum, og þá er gríðarlega vinsælt að koma hérna og bjarga pysjum. Það eru komnar um 300 pysjur inn í safnið núna.“

Löng hefð fyrir pysjubjörgun

Í Vestmannaeyjum hefur verið löng hefð fyrir því að krakkar bæjarins fari um og safni pysjum sem dragast að ljósum bæjarins og lenda á strætum hans þegar þær hefja sig til síns fyrsta flugs úr hreiðrum sínum og ætla að stefna á hafflötinn þar sem þær vaxa og dafna.

„Veiðarfærin eru vasaljós og pappakassi, og svo er bara að vera á undan kettinum að ná pysjunni. Krakkarnir veiða á kvöldin, og síðan fara þeir með þær upp í fiskasafn þar sem þær eru vigtaðar og ef þær eru nógu hressar til að fara áfram þá taka krakkarnir þær og sleppa þeim, annað hvort strax um kvöldið eða daginn eftir, út í sjó. Þetta er að byrja núna, en í fyrra voru um 3000 pysjur vigtaðar í safninu,“ segir Páll Marvin.

Lundastofninn legið niðri en er að ná sér

Lítið hefur veirð um pysjuveiðar undanfarin ár enda hefur lundastofninn legið niðri. Hefur breyttum aðstæðum í hafinu verið kennt þar um, en á síðustu tveimur árum hefur hann tekið við sér á ný.

„Vandamál lundastofnsins er fyrst og fremst hitastigsbreyting sjávar sem koma makrílsins vitnar um. Það vantar sandsíli á þeim tíma sem pysjan er að koma upp, hún þarf á þessu sandsíli að halda. Það sem er að gerast í fyrra og núna, það verða einhverjar aðstæður í sjónum sem gefa lundanum tækifæri til að ala pysjuna upp á. Það eru ýmis konar kenningar um það,“ segir Páll Marvin.

Vinsælt meðal fjölskyldna hermanna

Páll segir það vinsælt hjá ferðamönnum, bæði íslenskum og erlendum að koma til að taka þátt í pysjuveiðunum, en lengri hefð er fyrir því að ferðamenn komi og taki þátt í björgunarleiðungrunum heldur en kannski ætla mætti.

„Það var reyndar rosalega mikið þegar Bandaríski herinn var hér á landi, það var rosalega vinsælt hjá fólkinu á vellinum að koma og taka þátt í þessu og síðan hefur þetta spyrst út. Það hafa komið ferðamenn gagngert, bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn til að taka þátt í þessu, en það er mjög erfitt að markaðssetja þetta, því við vitum aldrei hvenær toppurinn verður,“ segir Páll Marvin sem segir jafnframt að mjög vinsælt sé að koma og skoða lundann Tóta á safninu.

„Honum var bjargað hérna árið 2011 en var ekki hægt að sleppa. Það er fólk að koma sérstaklega til að skoða Tóta, hann er orðinn svo merkilegur.“

Björgun og veiðar haldast í hendur

Eins og heyra má lifa Vestmanneyingar í góðri sátt við náttúruna og umhverfi sitt, enda hefur lífið þar alltaf oltið á því sem náttúran gefur af sér.

„Það voru þrír dagar leyfðir núna í seinni part ágúst að veiða lunda, það er bara því að stofninn er búinn að vera í svo vondu ástandi. Þetta er bara málamiðlunarveiði, til að viðhalda hefðinni.“