Eftir að ástralska flugfélagið Qantas Airways tilkynnti í ágúst um tæplega 260 milljóna dollara tap hefur flugfélagið þurft að grípa til ýmissa aðgerða til að rétta reksturinn af. Félagið afpantaði meðal annars 35 eintök af Boeing 787 Dreamliner flugvélunum sem eru um 8,5 milljarða dollara virði.

Qantas hefur gert 10 ára samstarfssamning við Emirates flugfélagið og lýkur þar með samstarfi Qantas og British Airways. Dúbaí tekur við sem miðstöð tengiflugs Evrópu-flugleiða Qantas í staðinn fyrir Singapúr frá og með mars 2013. Qantas mun því haga flugtímum í takt við flug Emirates.

Alan Joyce, forstjóri Qantas, sagði að hann væri sannfærður um að áætlanir félagsins myndu ganga eftir og félagið myndi koma út á sléttu árið 2015.