Ástralska flugfélagið Qantas Group hefur gengið frá pöntun á 110 A320 vélum frá evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus. Um er að ræða stærstu flugvélakaup í ástralskri flugsögu en Qantas hyggst með þessu endurnýja flugflota sinn á næstu árum.

Qantas Group á og rekur hið þekkta Qantas flugvél auk þess að reka lággjaldaflugfélögin Jetstar, Jetstar Asia (með höfuðstöðvar í Singapúr) og Jetstar Japan en félögin munu deila með sér nýjum Airbus vélunum.

Sem fyrr segir eru vélarnar af gerðinni A320 en þar af eru 78 vélar af A320neo gerðinni, þ.e. með öflugri en um leið sparneytnari hreyflum sem ætlað er að lengja flugdrægni vélanna. Qantas mun nota vélarnar bæði í innanlandsflugi innan Ástralíu sem og millilandaflugi innan Eyjaálfu og Asíu.

Andvirði pöntunarinnar er ekki gefið upp.