Ættarveldi Porsche samþykkti á föstudag að selja 10% af atkvæðisbærum hlut sínum til Qatar Holding sem fyrsta lið í sameiningu við Volkswagen sem greint var frá hér á vef Viðskiptablaðsins í gær. Sá samruni á að koma til framkvæmda 2011. Þessi samruni er af sérfræðingum talinn einn sá flóknasti sem um getur að því er segir í The Financial Times.

Annar þáttur í að koma saman samrunasamningi Porsche og Volkswagen var að emírinn af Qatar mun einnig leika lykilhlutverk í Volkswagen með því að kaupa þar 17% af atkvæðisbærum hlutum. Var það gert með kaupum á hlut sem Porsche keypti í Volkswagen í tilraun sinni til að taka yfir þennan stærsta bílaframleiðanda Evrópu.

Samkomulag um kaup Qatar á hlutunum í Porsche er metið á 7 milljarða evra. Hlutabréf í Volkswagen féllu um 15% á föstudag vegna ótta fjárfesta um að verið væri að greiða of hátt verð fyrir hlut þess í Porsche. Gríðarlegur stærðarmunur er á félögunum því Volkswagen framleiðir um 6 milljónir ökutækja á ári en Porsche framleiðir „aðeins” um 100.000 bíla.

Samkomulagið um samrunann felur í sér að VW kaupir 42% hlut í Porsche AG fyrir 3,3 milljarða evra, en fyrir á Porsche fjölskyldan nærri 51% hlut í VW. Qatar borgar 7 milljarða evra fyrir 10% hlut sinn í Porsche og 17% í VW. Þá á VW að leggja til 4 milljarða evra gegn forgangsrétti á auknum hlutafjárkaupum á árinu 2010. Gert er ráð fyrir að Porsche og Piech fjölskyldurnar selji VW stærsta bílasölufyrirtæki Evrópu á árinu 2011. Þá á Porsche eignarhaldsfélagið að standa fyrir hlutafjáraukningu á árinu 2011. Að lokum er gert ráð fyrir að gengið verði endanlega frá samrunanum á árinu 2011.