Telma Halldórsdóttir, stjórnarmaður í Q Iceland Finance ehf. (QIF) hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umræðu sem skapast hefur um aðkomu félagins að kaupum Emírsins Sheikh Mohamed bin Khalifa Al-Thani á 5,1% hlut í Kaupþing banka þann 22. september síðastliðinn.

Þar kemur fram að QIF er dótturfélag Q Icelandi Holding ehf. sem er í eigu Emírsins og var félaginu ætlað að halda utan um kaup á 5,1% hlut Emírsins í Kaupþing.

„QIF kom ekki nálægt samningagerð á milli bankans og Emírsins um kaup á hlutnum eða hvernig þau voru fjármögnuð,“ segir í yfirlýsingunni.

Fram kemur að aðkoma félagsins hafi verið sú að þegar gengið hafði verið frá samningum var ákveðið að félagið skyldi halda á hlutnum og um það hefði verið tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins.

Þá kemur fram að þær upplýsingar sem QIF voru veittar um fjármögnun voru þær að kaupin hefðu verið fjármögnuð með eftirfarandi hætti, annars vegar að helmingi með lánasamningi sem tryggður var með persónulegri ábyrgð Emírsins sem QIF fékk síðar staðfestingu á að lánið hefði verið að fullu greitt, og hins vegar að helmingi með láni frá þriðja aðila sem tryggt var með veði í hinum keyptu hlutum.

„Félagið hafði hins vegar ekki upplýsingar um hvernig þessum veðsetningum var háttað enda fóru veðsetningar ekki fram í nafni Q Iceland Finance ehf.,“ segir í yfirlýsingunni.