Skemmtiferðaskipið Queen Elisabeth mun koma til Íslands næstkomandi mánudag og hafa viðkomu á Akureyri, Ísafirði og í Reykjavík.

Queen Elisabeth þykir mjög glæsilegt og virðulegt skip og í tilkynningu er haft eftir Jóhanni Bogasyni, deildarstjóra hjá TVG-Zimsen að skipið sé gjarnan kallað drottning skemmtiferðaskipanna. TVG-Zimsen þjónustar Queen Elisabeth á meðan skipið er í höfn á Íslandi.

Þetta er í fyrsta skipti sem hin nýja Queen Elisabeth siglir til Íslands en skipið var smíðað árið 2010 og leysti þá forvera sinn af hólmi. Elísabet Englandsdrottning gaf skipinu nafn við virðulega athöfn árið sama ár. Skipið er 92 þúsund tonn og tekur rúmlega tvö þúsund farþega.

Jóhann segir sumarið hafa gengið mjög vel miðað við allt umfangið, en metfjöldi ferðamanna komi með skemmtiferðaskipum í sumar.