Olíuverzlun Íslands (Olís) hefur tekið ákvörðun um að hætta með Quiznos. Olís tók við sérleyfi Quiznos á Íslandi árið 2007 og opnaði sinn fyrsta Quiznos stað á þjónustustöð Olís í Norðlingaholti við Rauðavatn. Quiznos hefur fram til þessa verið að finna á tólf þjónustustöðvum Olís vítt og breitt um landið, en nú er ljóst að staðirnir munu renna sitt skeið á næstu dögum.

Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, segir ákvörðunina hafa verið tekna í ljósi áhrifa kórónuveirufaraldursins á reksturinn.

„Við höfum upplifað mikið tekjufall í faraldrinum, líkt og fleiri í okkar grein. Frá því að faraldurinn skall á hér á landi höfum við verið í stöðugum umbóta- og hagræðingaraðgerðum í þeirri viðleitni að lækka hjá okkur rekstrarkostnað á móti lækkandi tekjum undanfarna mánuði. Lokun Quiznos er nauðsynlegur liður í þeim aðgerðum, því miður," segir Jón Ólafur.

Jón Ólafur er þó bjartsýnn á að byr fari að blása í seglin. „Við vonum svo sannarlega að betri tíð sé fram undan og að Íslendingar verði öflugir hér heima í sumarfríum sínum í ár líkt og síðasta sumar. Ég býst alveg við að svo verði, mér heyrist fólk almennt fara jákvæðum orðum um það hvernig sumarið gæti orðið, þrátt fyrir að hér verði sjálfsagt færri ferðamenn en við eigum að venjast. Bólusetningar gefa tilefni til aukinnar bjartsýni svo ég trúi því að það séu mikið betri horfur hér í ár en á síðasta ári."

Sækja fram með eigið vörumerki

Þessa dagana eru allra síðustu forvöð að næla sér í Quiznos en bátarnir eru nú seldir á tilboðsverði á meðan birgðir endast. „Við erum hægt og bítandi að skipta Quiznos út þessa dagana en við ákváðum að leyfa þessu að lifa á meðan birgðir endast," segir Jón Ólafur.

Hann segir lokun Quiznos þó ekki þýða að Olís sé að leggja árar í bát, félagið sæki þvert á móti fram með nýtt vörumerki.

„Við erum alls ekki að leggja árar í bát, við erum að sækja fram með nýja veitingavörumerkið ReDi Deli, en það er okkar eigið vörumerki og hefur verið að reynast vel. Það er einfaldara í framkvæmd að reka eigið vörumerki, auk þess sem það er hagkvæmara enda fylgir „Franchise" vörumerkjum á borð við Quiznos kostnaður sem keðjan tekur til sín. Við nýtum því tækifærið og snúum vörn í sókn."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafa um árabil keypt umferðarljósastýringarþjónustu án þess að verkefnið sé boðið út.
  • Hlutafé félags sem á 80% hlut í lúxusíbúðaverkefni í Austurhöfn var nýlega aukið um ríflega 700 milljónir króna.
  • Umfjöllun um hlutabréfaverð og verðmat Arion banka.
  • Viðtal við John Thomas, stjórnarmann í Icelandair.
  • Framkvæmdastjóri Línuborunar segir frá strenglagnavél sem að hans sögn er umhverfisvænni og hagkvæmari kostur við lagningu strengja og röra en hin hefðbundna leið.
  • Fjórir félagsmenn Eflingar höfðu ekki erindi sem erfiði í máli sínu gegn þrotabúi Manna í vinnu og Eldum rétt.
  • Lóa Bára Magnúsdóttir, nýr markaðsstjóri Heimstaden, ætlaði að stoppa stutt við í Noregi en árin þar urðu ellefu.
  • Fjallað er um aukin umsvif CCP í Kína.
  • Óðinn fjallar um harðbrjósta heilbrigðisráðherra.
  • Týr fjallar um sóttvarnir auk þess sem hrafnarnir eru á sínum stað.