Hinn vinsæli spurningaleikur QuizUp, sem framleiddur er af íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Plain Vanilla, er nú loksins kominn út fyrir Windows-síma. Fram að þessu hefur einungis verið hægt að sækja símann í Android og iOS stýrikerfin.

Önnur kynslóð QuizUp leiksins kom út í maí og er það mikill hvalreki fyrir Microsoft að fá þennan vinsæla leik í Windows símana, sem oft hafa verið útundan þegar kemur að hönnun á öppum og símaleikjum. Er úrvalið ekki nærri því það sama og í t.d. iPhone og Samsung símum.

Er það fyrst og fremst vegna þess hve lítil markaðshlutdeild Windows stýrikerfisins er hjá farsímaframleiðendum í samanburði við áðurnefnda risa. Það eru fyrst og fremst allra vinsælustu öppin sem einnig koma út á Windows.

Í QuizUp er að finna yfir 600 þúsund spurningar í 1.200 flokkum. 33 milljónir manna hafa náð í leikinn og 30 þúsund nýir notendur bætast við að meðaltali hvern einasta dag. Virkir spilarar spila tæplega 7 milljónir leikja á dag og eyða að meðaltali 30 mínútum í að spila leikinn dag hvern. Í heildina hafa verið spilaðir rúmlega 4 milljarðar leikja þar sem spilarar hafa svarað 28 milljörðum spurninga.