„Þetta er óraunverulegt!“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Plain Vanilla. Spurningaleikur fyrirtækisins kom út í gær og situr nú í fimmta sæti metsölulistans yfir leiki í App Store, netverslun Apple, rétt á undan hinum geysivinsæla leik Candy Crush. Sé litið til allra ókeypis appa þá situr QuizUp nú í níunda sæti yfir þau sem oftast er hlaðið niður. Í sætunum beint fyrir ofan og beint fyrir neðan QuizUp má sjá öpp frægra fyrirtækja eins og Instagram, Snapchat, Facebook og Youtube.

Haft er eftir Þorsteini í tilkynningu að þetta sé ótrúlega gaman eftir þá tveggja ára vinnu sem er á bak við leikinn. Hann hafi ásamt starfsfólki fyrirtækisins í dag verið að horfa á skjá sem sýnir hækkandi tölu notenda á hverri sekúndu.

Þá segir í tilkynningunni að í tengslum við útgáfu leiksins hafi birst umfjallanir á vefmiðlum á borð við Business Insider, TheNextWeb, VentureBeat, AllthingsD og Inside Mobile Apps.

Stærsti spurningaleikur í heimi

QuizUp spurningaleikurinn er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum en í honum er að finna um 150 þúsund spurningar í hátt í 300 flokkum. Á meðal efnisflokka sem hægt er að spreyta sig á spurningum úr eru bókmenntir, landafræði, kvikmyndir, tónlist, íþróttir og sjónvarpsþættir. Meira en 100 manns hafa unnið að gerð spurninga fyrir leikinn. Leikurinn er aðeins fáanlegur fyrir iPhone og iPad til að byrja með en unnið er að útgáfu fyrir Android-síma.

Þróun leiksins fer að mestu leyti fram hér á landi en markaðssetning hans er aðallega miðuð við Bandaríkjamarkað. Þó sýna fyrstu tölur að Íslendingar taki leiknum vel enda er áhugi landsmanna á spurningakeppnum mikill. Leikir þar sem fólk spilar við aðra í gegnum síma og spjaldtölvur hafa átt miklum vinsældum að fagna undanfarin misseri og orðaþrautir ýmiss konar eru sérstaklega vinsælar. Líklegt þykir að QuizUp höfði til sama hóps en enginn sambærilegur leikur er á markaðnum.