Landsvirkjun á nú í viðræðum við fimm mögulega kaupendur að orku sem framleidd verður á jarðhitasvæðum á Norðausturlandi. Meðal þeirra eru álfyrirtækin Alcoa og hið kínverska Bosai Mineral Group. Heildarkostnaður vegna uppbyggingar virkjana á Þeistareykjum, Kröflu og Bjarnarflagi er áætlaður 125 til 130 milljarðar.

Gert er ráð fyrir að virkjanir verði byggðar upp á löngum tíma, eða allt að áratug. Talið er að yfir 400 megavött geti fengist með virkjunum á þessum svæðum. Fram hefur komið í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, að kaupandi orkunnar verði að geta lagað sig að löngum uppbyggingartíma á virkjunum.