Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) sagði í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna sem nú stendur yfir að í atvinnulífinu mætti nú merkja vaxandi stuðning við upptöku evru sem gjaldmiðils, „þótt vitað sé að margra ára samningaferli við ESB og aðlögun að skilyrðum um þátttöku í myntbandalagi Evrópu breyti ekki stöðunni gagnvart vaxtastefnu Seðlabankans á næstu mánuðum,“ sagði Ingimundur.

„Ég gat þess við svipað tilefni fyrir tveimur árum, að ráðaleysi í stjórn efnahags- og peningamála mætti ekki verða ástæða fyrir upptöku evru eða aðild að ESB. Þá væri illa komið. Slíka ákvörðun verður að taka af yfirvegun eftir ítarlega umræðu og það er á þeim grunni, sem Samtök atvinnulífsins nálgast nú umfjöllun um þessi mál,“ sagði Ingimundur í ræðu sinni.

Þá sagði hann ástæðu til að rifja upp að þegar Gordon Brown tók við embætti fjármálaráðherra Bretlands árið 1997, þá nefndi hann fimm skilyrði, sem hann taldi að uppfylla þyrfti áður en Bretar gætu tekið ákvörðun um að taka upp evru sem gjaldmiðil.

Þar var fyrst til tekið, að efnahagskerfi og atvinnulíf Bretlands og annarra ríkja Evrópusambandsins yrðu að vera samhæf, þannig að Bretar gætu búið varanlega við vaxtastig evrusvæðisins.

Í annan stað þyrfti hagkerfið að vera nægjanlega sveigjanlegt til þess að geta tekist á við þau efnahagslegu og félagslegu viðfangsefni, sem upp gætu komið.

Í þriðja lagi yrði aðild að myntbandalaginu að skapa betri skilyrði fyrir þau fyrirtæki, sem hyggjast fjárfesta til langs tíma.

Í fjórða lagi þyrfti aðild að myntbandalaginu að tryggja samkeppnisstöðu breska fjármálageirans og í fimmta lagi yrði aðild að myntbandalaginu að geta leitt til aukins hagvaxtar, meiri stöðugleika og varanlegrar fjölgunar starfa.