Hollenski bankinn Rabobank bætti á miðvikudaginn við krónubréfaútgáfu sína og gaf út krónubréf fyrir um það bil þrjá milljarða króna til þriggja ára. Rabobank er meðal stærri útgefenda krónubréfa og hefur frá því í ágúst í fyrra þegar útgáfan hófst gefið út fyrir samtals 40 milljarða króna.

Alls stendur krónubréfaútgáfan nú í tæplega 240 milljörðum króna sem nemur 240% af vergri landsframleiðslu síðasta árs.

Þóra Helgadóttir sérfræðingur hjá greiningu Kaupþings banka segir að jafnvel megi búast við frekari útgáfu kónubréfa á næstunni þar sem mikil eftirspurn eftir ríkisbréfum undanfarið gæti gefið vísbendingu um að fleiri útgáfur séu á leiðinni. Þóra segir að reynslan frá því í vetur hafi sýnt að þegar eftirspurn erlendra aðilila eftir ríkisbréfum hafi aukist samhliða styrkingu krónunnar eins og hafi nú verið upp á teninginn þá hafi það yfirleitt verið vísbending um að frekari krónubréfaútgáfu væri von þar sem ríkisbréf þjóna því hlutverki að vera vaxtagjafar fyrir krónubréf og því ákveðinn trygging fyrir kaupendur þeirra.

Töluverð viðskipti hafa verið með ríkisbréf undanfarið og til að mynda var keypt fyrir fjóra milljarða í gær og talsverð viðskipti voru í vikunni á undan.

Að sögn Þóru mun frekari útgáfa krónubréfa styðja við gengi krónunnar og auka einnig líkurnar á því að þau bréf sem eru á gjalddaga í haust verði framlengd. Stór hluti útgáfunnar, eða um það bil 60,5 milljarðar, verður á gjalddaga í ágúst og september næstkomandi og Þóra segir að ef útgáfa þeirra væri framlengd kæmi það klárlega til með að draga úr veikingu krónunnar sem myndi að öllum líkindum fylgja í kjölfarið.

Þróun á gengi krónunnar er einn helsti áhrifavaldur á verðbólgu hér á landi þar sem mikill hluti af dagvöru neytenda er innfluttur. Sterkari króna með haustinu en áður var gert ráð fyrir gæti því dregið úr verðbólguþrýstingi segir Þóra.

Frekar rólegt hefur verið í krónubréfaútgáfunni það sem af er af þessu ári en útgáfan náði hámarki fyrir lok síðasta árs þegar krónubréf voru gefin út í nánast hverri viku um langt skeið. Þóra Helgadóttir segir að engan þyrfti að undra að krónubréfaútgáfan færi af stað að nýju nú þar sem að mun hagstæðari skilyrði til slíkrar útgáfu eru nú til staðar en áður. Vaxtamunurinn við útlönd er núna í hámarki eftir vaxtahækkanir Seðlabankans á árinu og einnig er krónan nú nær jafnvægisgildi sínu en áður sem að útilokar áhættuna á skörpu og hröðu gengisfalli sem er helsta áhættan sem tengist útgáfunni. Eftirspurn eftir öruggum fjárfestingum hefur verið að aukast og veiking krónunnar frá því um áramót hefur gert krónubréfin að mun eftirsóttari fjárfestingarkosti en áður.

Það eru aðallega stærstu útgefendur krónubréfanna sem hafa bætt við sig á árinu en útgáfa þýska landbúnaðarsjóðsins KfW sem er stærsti útgefandi krónubréfanna stendur í 55 milljörðum króna um þessar mundir og á hæla hans fylgir Evrópski fjárfestingabankinn sem hefur gefið út krónubréf fyrir 40 milljarða króna og Rabobank sem einnig hefur gefið út fyrir 40 milljarða.