Bandaríska póstsendingafyrirtækið United Parcel Service (UPS) hyggst ráða til sín 100.000 starfsmenn fyrir jólin í ár en jólavertíð fyrirtækisins hefst í nóvember. Þetta kemur fram í frétt Reuters en fyrirtækið greindi frá þessu í dag.

Fyrirtækið mun ráða til sín rúmlega 5% fleiri en á sama tíma í fyrra þegar UPS réð til sín 95.000 starfsmenn í tímabundið starf.

Vertíðin í póstsendingum hefst á „Black Friday“ sem er dagurinn eftir Þakkargjörðarhátíðina og nær fram í byrjun janúar.

UPS er ekki eina fyrirtækið í þessum geira sem hyggst bæta við sig fyrir jólin en FedEx greindi frá því í síðustu viku að fyrirtækið hyggðist ráða til sín 55.000 starfsmenn fyrir jólin.