Samkvæmt heimildum blaðsins vinna nokkur ráðuneyti að því að finna framlengingu hlutabótaleiðarinnar farveg og stefnt sé að því að kynna og samþykkja þá aðgerð strax í næstu viku. Verkefnið er brýnt enda sjá mörg fyrirtæki fram á að geta ekki greitt laun til starfsfólks. Slíkt myndi þýða að störf í ferðaþjónustu fuðri upp en ný rísa sem Fönix hjá skiptastjórum.

„Satt best að segja áttum við von á því að það kæmi einhver ákvörðun um hlutabæturnar. Það er það sem mun spila stærsta hlutverkið í framhaldinu,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.

„Miðað við óbreytt ástand, ef hlutfall hlutabótaleiðarinnar verður ekki hækkað, þá eru framundan uppsagnir hjá mínu fyrirtæki um komandi mánaðamót. Það er það sama hjá öllum aðilum í greininni, það verða stórfelldar uppsagnir ef ekkert verður gert. Við getum einfaldlega ekki viðhaldið ráðningarsambandi í 25% leiðinni,“ segir Davíð Torfi.

Davíð Torfi viðrar þá lausn um að fyrirtækjum verði veittur sá kostur að leggjast í hálfgerðan dvala. Leiðin myndi fela í sér að fyrirtæki gætu í raun skellt í lás og hætt starfsemi án tekna eða kostnaðar. „Á sama tíma væri búið svo um hnútana að kröfum og innheimtubréfum myndi ekki rigna yfir fyrirtækin og leiðin útfærð þannig að þetta verði gert upp þegar ástandið er boðlegra,“ segir Davíð Torfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .