Fjárfestar eru uggandi yfir stjórnarkreppunni í Grikklandi um þessar mundir en hver tilraunin á fætur annarri til að mynda nýja ríkisstjórn þar í landi hefur farið út um þúfur. Meira að segja tilraunir Karolos Papoulis, forseta Grikklands, til myndunar samsteypustjórnar steytti á skeri í gær. Viðræður um málið hafa þó verið boðaðar síðar í dag.

Helstu hlutabréfavísitölur á fjármálamörkuðum í Evrópu hafa sigið talsvert af þessum sökum. Gengi hlutabréfa banka og fjármálafyrirtækja í Þýskalandi og Frakklandi hafa orðið verst úti. Fjárfestar þar hafa svo sem ástæðu til að svitna, enda eiga bankar í þessum löndum mest undir því að Grikkir geti staðið við skuldbindingar sínar.

CAC 40-vísitalan í kauphöllinni í París hefur það sem af er degi fallið um 2,4% en Dax-vísitalan í Þýskalandi fallið um rétt rúm 2%. Ástandið er svipað í London og Madrid á Spáni.

Meira að segja Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur látið undan síga í dag. Hún hefur lækkað um 1,25% og stendur hún nú í rétt rúmum 1.077 stigum. Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar hefur lækkað mest í dag, nær þó að tala um fall, eða um 3,3%.