Fjársýsla ríkisins hefur komist að þeirri niðurstöðu að hún hefur ofgreitt laun forseta Íslands, ráðherra og ýmissa embættismanna síðustu þrjú ár eða allt frá því að lög um laun þjóðkjörinna manna, ráðherra og tiltekna embættismanna tóku gildi.

Talið er að uppsöfnun ofgreiddra launa nemi um 105 milljónum króna og að alls hafi um 260 einstaklingar, þar af eru 215 enn í starfi, fengið ofgreidd laun. Þetta kemur fram á vef fjársýslu ríkisins.

Samkvæmt lögum nr. 79/2019 skulu laun þjóðkjörinna manna, ráðherra og tiltekinna embættismanna ríkisins taka breytingum 1. júlí ár hvert samkvæmt hlutfallslegri breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Þá hefur komið í ljós að allt frá gildistöku laganna hefur viðmið við framkvæmdina verið launavísitala ríkisstarfsmanna. En það er ekki í samræmi við það viðmið sem lögin kveða á um þ.e. meðaltalsbreyting reglulegra launa ríkisstarfsmanna á milli ára.

Þeir aðilar sem um er að ræða þurfa að endurgreiða uppsafnaða ofgreiðslu launa en endurgreiðslan fer fram í áföngum á 12 mánaðar tímabili. Verður greiðslan ýmist tekin dregin af launum eða kröfur stofnaðar í jöfnum hlutum í 12 mánuði. Miðað er við að endurgreiðslufjárhæðin samræmist um þriðjungshlut mánaðarlauna viðkomandi einstaklinga.

Hópurinn sem um ræðir er eftirfarandi:

  • þjóðkjörnir fulltrúar þ.e. forseti og alþingismenn; ráðherrar
  • hæstaréttar-/ landsréttar-/ og héraðsdómarar
  • saksóknarar
  • lögreglustjórar
  • ráðuneytisstjórar
  • seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri
  • ríkissáttasemjari