Helstu ráðamenn og lykilfólk í alþjóðlegum stjórnmálum og viðskiptalífi skeggræða nú öll heimsins vandamál á fundi Bilderberg-hópsins svokallaða sem nú stendur yfir á Westfield Marriott-hótelinu í Virginíuríki í Bandaríkjunum. Það er rétt utan við Washington-borg í námunda við Dulles-flugvöllinn. Fundurinn er haldinn ár hvert. Hann hófst í gær og lýkur honum á sunnudag.

Umræðuefni fundarins eru samskipti þjóðanna, þróun stjórnmála beggja vegna Atlantsála, hagræðingaraðgerðir í skugga skuldakreppunnar og aðgerðir sem geta leitt til hagvaxtar. Þá er rætt um þróun lýðræðir í Rússlandi, Kína og Miðausturlöndum.

Henry Kissinger
Henry Kissinger

Fundargestir að þessu sinni eru 145 talsins ásamt tveimur blaðamönnum breska vikuritsins Economist sem standa utan gestalistans. Um tveir þriðju hlutar gesta eru frá Evrópu en hinir frá Bandaríkjunum og öðrum löndum. Á meðal gesta nú eru Josef Ackerman, forstjóri Deutsche Bank, Joaquín Almunia, yfirmaður samkeppnismála hjá Evrópusambandinu, Mark J. Carney, seðlabankastjóri Kanada, Thomas Endes, forstjóri Airbus, Henry Kissinger, utanríkisráðherra í forsetatíð Richards Nixons, fréttamaðurinn Charlie Rose, bandaríski hagfræðingurinn Kenneth Rogoff og skákmeistarinn Gary Kasparov.

Þeir sem áhuga hafa á málinu gesta lesið gestalistann í heild sinni hér .

Íslenskir stjórnmálamenn hafa verið boðnir á fundi Bilderberg-hópsins. Þar á meðal eru þeir Bjarni Benediktsson, Geir Hallgrímsson, Björn Bjarnason og Davíð Oddsson. Sá síðasti sem fór á slíkan fund fyrir Íslands hönd var Geir Haarde. Nokkur ár eru síðan það var.

Ráðabrugg í 58 ár

Bilderberg-fundirnir skipa stóran sess í hugum þeirra sem sjá samsæri í hverju skúmaskoti og telja þeir mikið leynimakk þar eiga sér stað. Helsta ástæðan fyrir því er sú að ekkert er gefið uppi um hvað mönnum fór á millum, engin opinber ályktun fundargesta er gefin út og engar eiginlegar niðurstöður kynntar af því sem þar fer fram hverju sinni.

Á vefsíðu Bilderberg-samtakanna þar sem farið er yfir efni nokkurra funda ásamt því sem listi yfir fundargesti er birtur, kemur fram að ástæðan fyrir því að ekkert er gefið út um það á sér stað á bak við luktar dyr á hverju ári er sú að fundirnir eru hugsaðir sem óopinber vettvangur þar sem fólk geti tjáð sig óhindrað um heimsins gagn og nauðsynjar.

Fyrsti fundur Bilderberg-hópsins var haldinn á Hotel de Bilderberg í Hollandi árið 1954 og heitir hópurinn eftir því. Þetta er hins vegar 60. fundurinn sem haldinn er í nafni Bilderberg-hópsins.