Ákveðið hefur verið að ráðast í viðræður um verkefnisfjármögnun Hverahlíðavirkjunar. Þetta samþykkti stjórn Orkuveitunnar á fundi nú í dag. Rætt verður við lífeyrissjóði um fjármögnun.

Samþykkt stjórnar var svohljóðandi:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra fyrirtækisins umboð til viðræðna við fulltrúa íslenskra lífeyrissjóða, og eftir atvikum Norðurál Helguvík ehf., um samning sem feli m.a. í sér að stofnað verði sérstakt fyrirtæki með þátttöku Orkuveitunnar um byggingu orkuvers á Hverahlíðarsvæðinu og sölu þess fyrirtækis á orku til Norðuráls að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Í samningsforsendum skal m.a. tryggt að ekkert framsal eigi sér stað á eignarrétti að orkuauðlindum, sem og að tryggt verði að eignarhald á öllum mannvirkjum og rekstri þeirra falli til Orkuveitunnar að nánar skilgreindum tíma liðnum. Samningar, ef til þess kemur, skulu háðir fyrirvara um samþykki stjórnar Orkuveitunnar og eigenda Orkuveitunnar.

Málefni Perlunnar voru einnig rædd á fundinum en eins og greint var frá í fréttum í dag hefur hópur fjárfesta fallið frá tilboði sínu í Perluna. Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi sagði málið hafa verið rætt á fundinum en að engin ákvörðun hafi verið tekin að sinni.