Frumsýning Harry Potter
Frumsýning Harry Potter
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Breski leikarinn Daniel Radcliffe sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem galdradrengurinn Harry Potter er sagður koma til greina í hlutverk Freddy Mercury í nýrri kvikmynd um ævi söngvarans. Freddy Mercury var söngvari bresku hljómsveitarinnar Queen og lést hann aðeins 45 ára að aldri 21. nóvember árið 1991.

Í breska dagblaðinu The Daily Star segir að grínistinn Sacha Baron Cohen, sem sló í gegn sem Ali G., hafi sagt sig frá verkefninu í sumar og geti Radcliffe fengið það ef hann vill.

Breska dagblaðið The Guardian segir Radcliffe hafa náð að vinna sig út úr hlutverkinu sem Harry Potter og gert góða hluti í öðrum verkum. Hæst beri hlutverk hans sem bandaríska bítskáldið Allen Gisberg í sviðsverkinu Kill Your Darlings. Þeir Mercury og Ginsberg áttu það sameiginlegt að báðir horfðu þeir til sama kyns.

The Guardian hefur upp úr The Daily Star að Radcliffe henti hlutverki Mercury betur. Þeir hafi verið álíka háir auk þess sem leikarinn úr Harry Potter geti líka sungið. Ekkert er sagt um sönghæfileika Sacha Baron Cohen en hann mun vera nokkuð hærri en Freddy Mercury var.

Hér má sjá brot af tónleikum Queen.