Smáforritið (e.app) Broddi hefur verið gefið út, en forritið gerir notandanum kleift að sækja og vafra um fréttir og fréttatengt efni með íslenskum raddskipunum. Að sögn Jóns Páls Leifssonar, eins af stofnendum Brodda máltækni ehf, er Broddi í raun persónulegur raddstýrður fréttalesari sem les þær fréttir sem notandinn vill heyra, þegar hann segir til.

„Hugmyndin að Brodda kviknaði þegar ég var að keyra son minn til Keflavíkur á körfuboltamót. Klukkan var hálf níu um morguninn og ekkert áhugavert í útvarpinu. Þá var sonur minn 8 ára og átti að taka korter á dag í heimalestur. Ég ákvað því að rétta honum símann og spurði hvort hann væri ekki til í að lesa upp fréttir fyrir mig. Honum leist vel á það og hóf að lesa upp fyrir mig fyrirsagnir og ég bað hann um að lesa fyrir mig þær fréttir sem mér fannst áhugaverðar. Svo las hann fréttir og ég sagði honum til ef ég vildi að hann hætti að lesa tiltekna frétt og skipti yfir í aðra. Þarna var ég því í raun kominn með persónulegan raddstýrðan fréttalesara sem las þær fréttir sem ég vildi á þeim tíma sem mér hentaði."

Að körfuboltamótinu loknu hafði Jón Páll samband við Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóra RÚV, og kynnti hugmyndina fyrir honum. „Hann tók vel í þessa hugmynd. Í kjölfarið fór ég og hitti Jón Guðnason, dósent við Háskólann í Reykjavík, sem er búinn að vera lengi í máltæknibransanum og fékk hann með mér í lið í þetta verkefni. Síðar bættist Róbert Kjaran einnig við hópinn."

Vildu ekki flækja hlutina um of

Næsta skref hjá þeim félögum var að sækja sér fjármagn til að geta hrint verkefninu af stað.

„Við sóttum um og fengum styrk frá Rannís til þess að búa til frumútgáfu af Brodda. Þá fór boltinn að rúlla og lausnin er nú tilbúin fyrir iOS stýrikerfi Apple snjalltækja en við erum enn að vinna í lausninni fyrir Android," segir Jón Páll.

Að sögn Jóns Páls er Broddi mjög einfaldur í notkun og segir hann að teymið hafi lagt áherslu á að fara ekki fram úr sér með því að vera að flækja hlutina of mikið í fyrstu.

„Broddi skilur ekki nema sjö til átta skipanir en vegna þess að hann skilur svona fáar skipanir þá á hann auðveldara með að skilja skipanirnar. T.d. skilur Siri mig ekki en Broddi hlýðir mér alltaf. Ef Facebook kæmi í fyrsta sinn út í dag með alla þá möguleika sem miðillinn býður upp á í dag, þá myndi fólki fallast hendur. En með því að byrja mjög einfalt er hægt að bæta við lausnina smátt og smátt í stað þess að gefa út flókna vöru sem erfiðara er að læra að nota."

Vonast til að auka fjölbreytileika efnisins

„Í dag spilar Broddi bara hljóðupptökur frá Ríkisútvarpinu, og er þar um að ræða útvarpsfréttir, Spegillinn og morgunútvarpið, en þetta eru ekki textafréttir sem eru lesnar af talgervli. Þetta er partur af því að við viljum byggja ofan á það sem fólk hefur vanist í stað þess að koma með of margar nýjungar í einu. Ég held að það væri til of mikils ætlast af notandanum að hann læri bæði nýja aðferð við að sækja efnið - þ.e. með raddskipunum -  og þyrfti líka að venjast því að hlusta á efnið lesið af talgervli.  En til lengri tíma litið, til að auka fjölbreytileikann, munum við eflaust í framtíðinni styðjast við talgervil sem getur lesið hvað sem er. En þá þarf tvennt að gerast. Í fyrsta lagi þurfa þessir talgervlar að vera betri en þeir eru í dag og í öðru lagi þarf fólk að venjast því að það sé ekki mannlegur fréttalesari sem les fréttirnar," segir Jón Páll.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .