*

þriðjudagur, 11. ágúst 2020
Innlent 24. júní 2019 14:55

Ráðgefandi áliti og matsmönnum hafnað

Landsréttur hefur hafnað beiðni Arctic Sea Farm og Arnarlax um dómkvaðningu matsmanna og að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Landsréttur hefur hafnað beiðni Arctic Sea Farm og Arnarlax um dómkvaðningu matsmanna og að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli landeigenda og náttúruverndarsamtaka gegn þeim. Með því staðfesti rétturinn niðurstöðu héraðsdóms.

Málið var höfðað af samtökunum gegn laxeldisfyrirtækjunum og íslenska ríkinu til ógildingar á útgáfu bráðabirgðarekstrarleyfis sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það leyfi var veitt eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði felld starfs- og rekstrarleyfi fyrirtækjanna úr gildi vegna vankanta á umhverfismati.

Undir rekstri málsins kröfðust eldisfyrirtækin að fjórar spurningar, er varða útgáfu leyfanna, yrðu sendar EFTA-dómstólnum til að fá ráðgefandi álit dómsins á þeim. Einnig óskuðu félögin eftir því að dómkvaddur yrðu matsmenn til að svara fimm spurningum. Lutu þær meðal annars að því hvaða þýðingu starfsemi félaganna hefði á sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp, hvaða afleiðingar það myndi hafa ef félögin misstu leyfið og ef starfsemin legðist af.

Í héraði var því hafnað að leita til EFTA-dómstólsins en dómurinn taldi sig fullfæran um að leggja sjálfstætt mat þau álitaefni sem uppi voru. Þá voru spurningarnar, sem félögin vildu leggja fyrir matsmennina, metnar tilgangslausar til sönnunar. Að endingu benti dómarinn á að málið hefði hlotið leyfi til flýtimeðferðar en það rennur út í september. Fyrirséð var að dómkvaðningin og ráðgjöf EFTA-dómstólsins myndi tefja málið og ýtti það enn frekar undir það að hafna beiðnunum.

Í Landsrétti var vikið að því að ráðgefandi álits yrði aðeins aflað ef skýring á ákvæðum EES-samningsins væri líkleg til að hafa raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins.

„Málsmeðferðráðherra vegna útgáfu umrædds rekstrarleyfis til bráðabirgða tók mið af því að um væri að ræða framkvæmd sem heyrði undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Leitaði ráðherra umsagnar Skipulagsstofnunar og tók til skoðunar hvort unnt væri að taka ákvörðun um leyfi til bráðabirgðaá  grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og áliti Skipulagsstofnunar. Íslenskir dómstólar skera úr um hvort nauðsynlegt hafi  verið að  afla  frekari  upplýsinga um  mat á  umhverfisáhrifum framkvæmda  áður  en  ákvörðunum  rekstrarleyfi  til  bráðabirgðavar tekin,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Beiðninni um ráðgefandi álit var því synjað. Niðurstaða héraðsdóms um dómkvaðningu matsmanna var staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms.