Ráðgert er að byggja 950 íbúðir í Reykjavík í ár. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs, á opnum fundi um stöðu atvinnulífs í borginni. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.

Í glærum sem Dagur kynnti kom fram að á árabilinu 2007 – 2012 hefði þurft að byggja 2.700 fleiri íbúðir en raun var og segir Dagur nauðsynlegt að brúa þetta bil til að mæta þörf fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Frá þessu alkuli eftir hrun var árið 2013 byrjað að byggja 614 íbúðir og nú í ár gera spár ráð fyrir að framkvæmdir við 950 íbúðir hefjst.  Aukningin árið 2015 gæti svo orðið mun meiri.

Dagur gerði óskir ungs fólks um búsetu að umræðuefni, en það vill einkum búa miðsvæðis í leiguhúsnæði og þær óskir ríma mjög vel við nýsamþykkt aðalskipulag. Hann fór síðan í kynningarglærum sínum yfir helstu uppbyggingarreitina og ljóst er að þar er ákaflega margt í pípunum.