Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið COWI hefur náð samkomulagi við Mannvit um kaup á því síðarnefnda og með samrunanum verður Mannvit hluti af COWI Group. Kaupin fara í gegn í dag, 31. maí. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

COWI var stofnað árið 1930 og sérhæfir sig í verkfræði, hönnun og arkitektúr á Norðurlöndunum en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Danmörku. Starfsmannafjöldi COWI er um 7.500, samanborið við 280 hjá Mannvit.

„Við erum spennt að bjóða Mannvit velkomið í hóp COWI Group. Samruninn veitir fyrirtækjunum byr undir báða vængi bæði út frá viðskiptalegum og menningarlegum sjónarmiðum. Innan beggja fyrirtækja er mikil sérfræðiþekking og þau deila sömu gildum og sýn er varðar sjálfbærar og vel hannaðar lausnir sem bæta lífsgæði fólks og komandi kynslóða,“ segir Jens Højgaard Christoffersen, forstjóri COWI Group.

„Það mikilvægasta er þó okkar sameiginlega sýn á að þróa framtíðarlausnir með sjálfbærni að leiðarljósi.“

Íslensk stjórnvöld hafa undanfarin ár aukið fjárfestingar sínar í uppbyggingu á innviðum og grænni orku. Mannvit segir að sem hluti af COWI Group mun fyrirtækið vaxa enn frekar og verði betur í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

„Samruninn mun skapa ný tækifæri með hagsmuni íslensks hugvits að leiðarljósi. Í samstarfsverkefnum höfum við náð að kynnast COWI og sjáum við góð tækifæri til vaxtar. Það mikilvægasta er þó okkar sameiginlega sýn á að þróa framtíðarlausnir með sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir Örn Guðmundsson, forstjóri Mannvits.

Sem hluti af samrunaferlinu mun Mannvit verða samþætt rekstrareining innan COWI Group og kemur til með að breyta nafni fyrirtækisins í COWI og starfa að fullu undir merkjum þess frá og með ársbyrjun 2024.