Vinnvinn er nýtt fyrirtæki á sviði ráðninga og ráðgjafar sem stofnað er af tveimur fyrrum starfsmönnum Capacent ráðninar ásamt með stofnanda Gallup ráðninga sem urðu síðar að Capacent.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í maílok fór Capacent í gjaldþrot en meðal starfsmanna félagsins sem farið hafa út í eigin rekstur er Snorri Jakobsson sem var yfir greiningu Capacent, en hann hefur stofnað félagið Jakobsson Capital sem sinnir meðal annars útgáfu verðmata á fyrirtækjum.

Vinnvinn sérhæfir sig í ráðgjöf og ráðningum stjórnenda, lykilstarfsmanna og sérfræðinga Stofnendur Vinnvinn, þau Auður Bjarnadóttir, Hilmar Garðar Hjaltason og Jensína Kristín Böðvarsdóttir eru sögði í fréttatilkynningu búa yfir áratuga reynslu á sviði ráðninga og ráðgjafar.

Jensína var einn stofnenda Gallup ráðninga sem síðar varð Capacent ráðningar þar sem Auður og Hilmar störfuðu sem ráðgjafar um árabil. Þau eru reyndir ráðgjafar með yfirgripsmikla þekkingu á sviði ráðninga.

Með stofnun Vinnvinn hyggjast þau sameina krafta sína með fjölbreyttri reynslu og þekkingu á öllum sviðum atvinnulífsins. Þau eru jafnframt sögð hafa byggt upp öflugt tengslanet og þekkingu á fyrirtækjamenningu, stjórnun í íslensku og alþjóðlegu atvinnulífi og innan opinberrar stjórnsýslu.

Auður Bjarnadóttir hefur komið að ráðningum hundruða einstaklinga innan íslensks atvinnulífs. Þá hefur hún verið skipuð í fjölmargar  hæfnisnefndir vegna undirbúnings skipunar í opinber embætti, en sérsvið Auðar er á sviði ráðninga í opinberri stjórnsýslu

Hilmar Garðar Hjaltason hefur síðustu áratugi komið að ráðningum forstjóra og lykilstjórnenda margra af stærstu fyrirtækjum landsins. Sérsvið Hilmars er stjórnendaleit og mönnun stjórna. Þá hefur Hilmar starfað að ráðningum fyrir fyrirtæki og stofnanir í öllum atvinnugreinum.

Jensína Kristín Böðvarsdóttir hefur undanfarið starfað sem Associate Partner hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Valcon, sem nú verður að samstarfsaðila Vinnvinn. Jensína var framkvæmdastjóri Global Strategic Planning og HR hjá Alvogen frá 2015 til 2018 og framkvæmdastjóri þróunar og mannauðs hjá Landsbankanum 2010-2015.

Jensína hefur tekið þátt í mönnun sérfræðinga og lykilstjórnenda víðsvegar um heiminn. Þá hefur hún mikla reynslu af stefnumótun, innleiðingu stefnu og þekkingu á því hvað vel mönnuð teymi skipta miklu máli fyrir góðan framgang fyrirtækja.

„Þegar kemur að því að velja réttan leiðtoga úr öflugum hópi hæfra umsækjenda skiptir áratuga reynsla, fagmennska og þekking á mats- og greiningartækni miklu máli.“ segir Jensína

„Við höfum nú þegar áralanga reynslu af ráðgjöf og ráðningum forstjóra og framkvæmdastjóra í mörgum stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Vissulega eru erfiðir tímar vegna Covid-19 en það eru þó ekkert síður tækifæri á markaði, bæði fyrir fólk og fyrirtæki.“