Tíu félög sem öll eiga það sameiginlegt að tengjast hlutabréfakaupum í Askar Capital hafa nú verið tekin til gjaldþrotaskipta. Átta félög heyra nú undir Eignarhaldsfélagið Hrímbakur ehf. sem er í eigu Lokkadísar ehf., sem bæði hafa verið tekin til skiptameðferðar.

Hrímbakur var í eigu Sátts ehf., sem var í eigu Guðmundar Ólasonar, fyrrverandi forstjóra Milestone. Sáttur ehf. var fyrir skömmu einnig tekið til skiptameðferðar. „Það eru allt saman frekar gömul viðskipti á bak við þetta sem er verið að gera upp í samráði við bankana,“ segir Guðmundur í samtali við Viðskiptablaðið.

Félögin sem um ræðir bera nöfnin Asca 1, Asca 2, Asca 3, Asca 5, Asca 7, Hrollur ehf., Kraflar ehf., Geigur ehf., Eignarhaldsfélagið Hrímbakur ehf. og Lokkadís ehf. Síðustu ársreikningar þessara félaga sýna að samtals var neikvætt eigið fé þeirra 1.025 milljónir króna í árslok 2010.