Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins ehf. (RML) nýtur ekki undanþágu á greiðslu tekjuskatts. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar (YSKN).

RML tók til starfa 1. janúar 2013 en félagið varð til við sameiningu ráðgjafarþjónustu búnaðarsambanda landsins og ráðgjafarsviðs Bændasamtakanna (BÍ). Félagið er að öllu leyti í eigu BÍ en samtökin njóta undanþágu frá greiðslu tekjuskatts á þeim grundvelli að starf þeirra sé til almannaheilla.

RML taldi sig eiga rétt á sömu undanþágu á þeim grunni að það ræki ekki atvinnu og ráðstafaði hagnaði sínum eingöngu til almannaheilla. YSKN taldi hins vegar að félagið ræki atvinnu í samkeppni við aðra aðila og að dómaframkvæmd sýndi að starfsemi félaga og samtaka, sem ynnu að hagsmunamálum tiltekinna starfstétta, væri háð greiðslu tekjuskatts.

„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort við höldum áfram með málið til dómstóla en mér finnst það ekki líklegt. Það er þó með þeim fyrirvara að stjórnin hefur ekki rætt næstu skref,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri BÍ og stjórnarformaður RML, við Viðskiptablaðið.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .