Það sló í brýnu milli Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra og Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, við upphaf þingfundar i dag.

Einar K. Guðfinnsson tilkynnti að umræða um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu  yrði frestað. Umræðan yrði ekki á dagskrá í dag eins og áður hafði verið ákveðið

„Ég óskaði eftir því að þetta mál yrði tekið á dagskrá og ég skil ekki rökin fyrir því að taka þetta af dagskrá,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson.

Einar K. Guðfinnsson sagði að ákvörðun sín um að fresta umræðunni hefði verið tekið eftir að hann hlýddi á rök sem komu fram fyrst á fundi með þingflokksformönnum og svo á fundi forsætisnefndar Alþingis í dag.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar þökkuðu hins vegar fyrir að málið skyldi tekið af dagskrá, þar á meðal Valgerður Bjarnadóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.