Samkvæmt frumvarpi vegna fyrirhugaðrar sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins fær ráðherra neitunarvald yfir ákvörðunum fjármálastöðugleikanefndar um leyfileg veðhlutföll og önnur skilyrði almennra fasteignalána, auk reglusetningar um almenn gjaldeyrislán.

Ekki er tekið fram hvaða ráðherra um ræðir. Málefni Seðlabanka Íslands heyra undir forsætisráðuneytið, en málefni fjármálastöðugleika heyra undir fjármálaráðuneytið.

Eitt af yfirlýstum markmiðum sameiningarinnar, sem tilkynnt var um í október, var að framkvæmd peningastefnu og þjóðhagsvarúðar yrði færð undir sama hatt.

Í núgildandi lögum eru téðar ákvarðanir á höndum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs, en í því sitja seðlabankastjóri, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðherra.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvörðunarvaldið færist til fjármálastöðugleikanefndar, en ákvörðunin verði þó sem fyrr segir háð staðfestingu ráðherra. Í umsögnum Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans sjálfs um frumvarpið er þessi ráðstöfun gagnrýnd nokkuð harðlega.

Geti sett ráðherra í erfiða stöðu
Samtök atvinnulífsins benda á að til að tryggja fjármálastöðugleika kunni að þurfa að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir.

„Reglusetning af þessu tagi, sem meðal annars getur haft áhrif á aðgengi einstaklinga að lánsfé, kann að vera nauðsynleg við ákveðin skilyrði til að viðhalda fjármálastöðugleika en getur reynst óvinsæl meðal almennings og þannig sett ráðherra í afar erfiða stöðu sem lýðræðislega kjörins embættismanns.

Til þess að tryggja sjálfstæði Seðlabankans, og getu hans til þess að ná markmiðum sínum á sviði fjármálastöðugleika, er þess vegna mikilvægt að ákvörðun um setningu þessara reglna sé ekki háð pólitísku samþykki.“

Segja eðlilegt að kjörnir fulltrúar hafi lokaorðið
Forsætis- og fjármálaráðuneytin svara þessari gagnrýni með því að þar sem reglurnar feli „í reynd í sér ráðstöfun á takmörkuðum gæðum, þ.e. þær [geti] með beinum hætti takmarkað aðgengi almennings að lánsfé“, geti talist eðlilegt að kjörnir fulltrúar hafi lokaorðið.

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, bendir hins vegar á að það sama mætti segja um önnur verkfæri peningamálayfirvalda. „Í raun og veru á það við um vaxtaákvarðanir og bindiskyldu líka.“

Í þessu kristallist sú togstreita sem óhjákvæmilega fylgi faglegri framkvæmd peningastefnu. „Seðlabankinn á að vera sjálfstæður, en hann er ekki í einhverju tómarúmi og hann þarf að svara fyrir það sem hann gerir, sem þarf að vera eftir einhverjum fyrirframákveðnum leikreglum og markmiðum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .