*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 19. nóvember 2019 08:22

Ráðherra fær Svarta-Pétur á ný

Ákvörðun PFS, um að veita Íslandspósti 1.463 milljónir króna úr galtómum jöfnunarsjóði alþjónustu, stendur óhögguð.

Jóhann Óli Eiðsson
Eva Björk Ægisdóttir

Ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), um að veita Íslandspósti (ÍSP) 1.463 milljónir króna úr jöfnunarsjóði alþjónustu, stendur óhögguð eftir að úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála (ÚFP) vísaði kæru Póstmarkaðarins á ákvörðuninni frá. Ákvörðunin þýðir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra situr eftir og þarf að ákveða hvaðan þeir peningar eiga að koma.

Athyglivert er að í málinu að áður en umsókn um framlag úr sjóðnum er samþykkt ber PFS meðal annars að meta hvort „ekki reynist mögulegt að veita þjónustuna á hagkvæmari hátt“. Umsókn úr sjóðnum var samþykkt í maí á þessu ári en um svipað leyti tók Birgir Jónsson við sem forstjóri ÍSP. Síðan þá hefur verið ráðist í viðamiklar hagræðingaraðgerðir sem ætlað er að skila um 500 milljónum króna árlega í bækur ÍSP. Mætti færa fyrir því rök að þessi þáttur málsins hefði ekki verið skoðaður áður en umrædd ákvörðun var tekin. Bætist það við þá staðreynd að PFS hefur, frá því stofnuninni var komið á fót, ekki tekið grundvöll gjaldskrár samkeppni innan alþjónustu ÍSP til skoðunar. Þetta staðfesti stofnunin í svari við fyrirspurn Neytendasamtakanna.

Gjaldið greitt af rekstrarleyfishöfum

Á þessum tíma fyrir ári síðan sótti ÍSP um fjárframlag úr jöfnunarsjóðnum. Umræddur sjóður hefur hingað til ekkert verið nema texti í lagabálki. Samkvæmt lögunum ber rekstrarleyfishöfum í póstþjónustu að greiða gjald í sjóðinn en slíkt gjald hefur aldrei verið innheimt. Samtals eru því núll krónur til í sjóðnum.

Jöfnunarsjóði alþjónustu er ætlað að bæta alþjónustuveitanda tap af óarðbærum svæðum. Samkvæmt lögunum eru „fjárframlög [úr sjóðnum] veitt til eins árs í senn og skal endurnýja umsóknir um fjárframlög fyrir settan tíma.“ Umsókn ÍSP um framlag var hins vegar afturvirk og tók til áranna 2013-17. Alls var sótt um 2,6 milljarða framlag til að mæta alþjónustubyrði af svokölluðum Kínasendingum. Fyrrverandi forsvarsmönnum Póstsins var tíðrætt um að umræddar sendingar væru að sliga fyrirtækið. Ýmislegt bendir hins vegar til þess að ýmsar rekstrarákvarðanir hafi einnig vegið þungt, mögulega þyngra, og tækifæri til hagræðingar hafi ekki verið gripin.

PFS féllst á umsókn ÍSP að hluta. Beiðni um framlög frá október 2014, og út árið 2018, var samþykkt en hluta fyrir það tímamark hafnað vegna fyrningar. Þá var hluta umsóknarinnar hafnað þar sem talið var að ÍSP hefði þegar fengið þann hluta bættan í gegnum gjaldskrá einkaréttar.

Í ákvörðun PFS var tekið fram að framlagið úr sjóðnum væri enn ófjármagnað og lagt var fyrir ráðherra að finna út úr því hvernig það skyldi gert. Samkvæmt lögunum greiða rekstraraðilar, það er allir, í sjóðinn og síðan er úthlutað úr honum til alþjónustuveitanda, það er ÍSP. Að mati PFS væri slíkt erfiðleikum háð þar sem stærstur hluti fjármagnsins myndi þá koma frá ÍSP.

Fjárhagsvandræði ÍSP ættu að vera flestum kunn og komst PFS að þeirri niðurstöðu að það myndi skjóta skökku við að ÍSP myndi greiða háa summu í sjóðinn, rúmlega 80% af 1,4 milljarði, til að fá það strax til baka. Afgangurinn myndi síðan leggjast á samkeppnisaðila á sama markaði sem þá væru í raun að greiða milljóna tugi til ÍSP.

Hafði ekki stöðu aðila máls

Eitt slíkt fyrirtæki, Póstmarkaðurinn, kærði ákvörðun PFS til ÚFP og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Ákvörðun PFS væri í andstöðu við lög um póstþjónustu þar sem lögin, túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan, leyfðu ekki að úthlutað væri afturvirkt úr sjóðnum. Þá benti fyrirtækið á að ef því yrði gert að greiða ÍSP milljóna tugi gæti það farið langleiðina með að ríða fyrirtækinu að fullu.

ÚFP tók hins vegar ekki efnislega á málinu. Nefndin benti á að Póstmarkaðurinn hefði ekki haft aðild að málinu á lægra stjórnsýslustigi. Þá væri ekki útséð með það hvort fyrirtækið hefði hagsmuna að gæta af málinu þar sem ekki væri ákveðið hvernig fjármunirnir yrðu greiddir úr sjóðnum. Til að njóta stöðu aðila á stjórnsýslustigi þar hlutaðeigandi að eiga undir einstaklega, verulega og lögvarða hagsmuni. Taldi ÚFP það skilyrði ekki uppfyllt og vísaði kærunni því frá.

Á yfirstandandi ári hefur hlutafé í ÍSP verið aukið um einn milljarð króna. Verði úrskurðinum fylgt eftir mun fyrirtækið því fá 1,5 milljarð til viðbótar. Afar sennilegt verður að teljast að það fé verði sótt í ríkissjóð enda myndi það ekki leysa fjárhagsvanda fyrirtækisins að láta það greiða stóran hluta þeirrar upphæðar í sjóðinn. Við þetta munu síðan bætast tugmilljóna greiðslur árlega frá ríkinu til ÍSP með gildistöku nýrra póstþjónustulaga. Þau fela í sér að einkaréttur fyrirtækisins er afnuminn en það mun njóta greiðslna frá ríkinu fyrir að veita alþjónustu um land allt.