Forsætisráðuneytið undirbýr nú breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands með það fyrir augum að veita ráðherrum auknar heimildir til að flytja stofnanir á milli landshluta.

Ástæðan er sú að í ljós hafi komið eftir að tilkynnt hafði verið um flutning Fiskistofu til Akureyrar að til slíks flutnings þyrfti sérstaka lagaheimild. Lagabreytingunni er ætlað að tryggja að ákvarðanir þess efnis hafi lagastoð þegar til þeirra kemur, en samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks verður miðað að því að flytja aðrar stofnanir en Fiskistofu af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina á kjörtímabilinu. Ekki liggur þó fyrir á þessu stigi hvaða stofnanir það muni verða.

Nánari upplýsingar um efni eða innihald frumvarpsins fást ekki uppgefnar að svo stöddu. Ekki náðist í forsætis- og dómsmálaráðherra við vinnslu fréttarinnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .