„Herra forseti. Hér tók til máls fyrrverandi ráðherra sem þurfti að víkja sæti úr ríkisstjórn vegna Evrópusambandsmálsins,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins þegar Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði hann út í afstöðu hans til áframhaldandi aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

„Þegar að það þurfti að koma út úr ríkisstjórninni einum ráðherra Vinstri grænna þurfti  Samfylkingin að sætta sig við þann fórnarkostnað að háttvirtur þingmaður sem hér talaði fór út úr ríkisstjórninni. Vegna þess að ríkisstjórn sem ekki var sammála um inngöngu í Evrópusambandið var ósamstarfshæf,“ sagði Bjarni Benediktsson.

Bjarni sagði að það væri þess vegna undarlegt að hlusta á háttvirtan þingmann og marga samflokksmenn  hans og fyrrverandi stjórnarliða ekkert kannast við það að það þurfi að vera pólitískur stuðningur, meirihluti á þingi og vilji í ríkisstjórn, til þess að klára samninga við Evrópusambandið.