Bæði Sante og Bjórland hafa skilað greinargerðum í málum ÁTVR gegn sér, þar sem þess er krafist að málunum verði vísað frá dómi vegna réttarfarsannmarka og réttur áskilinn til að skila greinargerð með efnisvörnum verði því hafnað. Frávísunargreinargerðir eru sjaldnast skemmtilesning, öðrum en langt leiddu áhugafólki um réttarfar, en þessi tvö mál kynnu að vekja áhuga fleiri.

Stjórnarlaus stofnun

Ástæða þess er staða ÁTVR. Ólíkt til að mynda Ríkisútvarpinu og Íslandspósti er ÁTVR ekki hlutafélag heldur ríkisstofnun í rekstri. Almennt tíðkast það að yfir slíkum stofnunum séu sérstakar stjórnir, dæmi um slíkt má sjá hjá hinum sáluga Íbúðalánasjóði og Menntasjóði námsmanna, og var það svo í eina tíð hvað ÁTVR varðaði. Það fyrirkomulag var afnumið árið 2011 með samþykkt nýrra heildarlaga um verslun með áfengi og tóbak.

Þess í stað hefur ÁTVR enga yfirstjórn og heyrir stofnunin stjórnskipulega beint undir ráðherra fjármála- og efnahags og ber honum að annast framkvæmd laganna. Hlutverk ÁTVR er skilgreint í lögunum og ber stofnuninni að sinna innkaupum, birgðahaldi, álagningu tóbaksgjalda, rekstri vínbúða og heildsölu tóbaks. Eftirlit með því hvort lögunum er fylgt er síðan í höndum lögreglu og skattayfirvalda.

„Hvergi er í þeim lögum sem varða málaflokkinn kveðið á um að [ÁTVR] skuli hafa eftirlit með sölu annarra á áfengi. Þvert á móti er tilgreint að yfirstjórn þess málaflokks sé í höndum ráðherra,“ segir í greinargerð Bjórlands og bætt um betur í greinargerð Sante: „[ÁTVR] virðist þetta í reynd ljóst enda kemur fram í stefnu að [stofnunin] hafi þegar beint erindum til allra framangreindra stjórndvalda, en ástæða málshöfðunarinnar sé sú að viðkomandi stjórnvöld hafi ekki brugðist við erindum stefnanda.“ Í greinargerð Sante segir svo nánar um þetta: „Þegar kemur að því sakarefni sem fyrri dómkrafa [ÁTVR] lýtur að þá er staðreyndin sú að löggjafinn hefur hvorki falið [ÁTVR] það hlutverk að framfylgja lögunum nr. 86/2011 né að hafa eftirlit með starfsemi á grundvelli laga nr. 75/1998“.

Með öðrum orðum þá telja allir stefndu að það leiði af lögum að það sé ekki forstjóra ÁTVR að ákveða hvort höfða beri slíkt dómsmál heldur fjármála- og efnahagsráðherra. Stofnunin hafi ekki heimild að lögum til að ráðstafa sakarefninu með þessum hætti og hafi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Af þeim sökum beri að vísa málinu frá dómi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .