Segja má að félagsmálaráðherra hafi brotið reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs með því að hafa ekki sett gjald á uppgreiðslur viðskiptavina sjóðsins eins og heimild er til. Er þetta meðal niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn.

Eins og fram kemur í skýrslunni, og fjallað hefur verið ítrekað um á síðum Viðskiptablaðsins, hefur Íbúðalánasjóður tapað umtalsverðum fjárhæðum vegna þess að viðskiptavinir hans greiða fyrr og hraðar upp lán sín á meðan útgefin íbúðabréf hans eru ekki innkallanleg. Samkvæmt reglugerðinni, sem sett var árið 2004, skal ráðherra, að fenginni umsögn stjórnar ÍLS, gefa út reglugerð um greiðslu þóknunar fyrir aukaafborganir og uppgreiðslu íbúðalána ef sýnt þykir að hefðbundnar áhættustýringaraðferðir og svigrúm við vaxtaákvörðin nægi ekki til að verja hag sjóðsins.

„Slíkar aðstæður eru einmitt um þær mundir þegar þetta er skrifað. Mikil hætta er á að sjóðurinn tapi frekara fé vegna uppgreiðslna viðskiptavina. Íbúðalánasjóður hefur tapað verulegu fé vegna uppgreiðslna í nokkur misseri. Má því segja að ráðherra hafi brotið reglugerðina. Þetta gjald er hægt að setja á nú og koma þannig í veg fyrir að sjóðurinn verði fyrir frekara tapi af völdum uppgreiðslna,“ segir í skýrslunni.