Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sinnti læknastörfum á árum áður þegar hann var stýrimaður. Þar á meðal saumaði hann í tvo skipsfélaga sína sem slösuðust. Hann segir í ítarlegu viðtali í Vikudegi á Akureyri verkið hafa tekist bærilega, svo hann segi sjálfur frá.

„Þegar ég hitti þessa fyrrverandi „sjúklinga“ mína, eru þessi læknisverk mín gjarnan rifjuð upp. Síðan ber stýrimaðurinn líka ábyrgð á lyfjaskápnum um borð og eðli málsins samkvæmt þurfti maður af og til að finna réttu lyfin. Annars voru þetta upp til hópa hraustir strákar og skemmtilegir og sem betur fer urðu læknisverkin ekki fleiri á sjónum,“ segir Kristján Þór í samtali við Vikudag.