Alcoa hafði ekki jafn mikinn áhuga á álversframkvæmdum á Bakka við Húsavík og haldið var á lofti. Þetta fullyrti Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra á Alþingi í dag. Ráðherrann sagði Alcoa aldrei hafa sótt um lóð fyrir álver á Bakka og aldrei farið í formlegar viðræður við Landsvirkjun um orkukaup.

Rætt var um stöðu mála á Húsavík á Alþingi í dag í skugga þess að Alcoa tilkynnti í vikunni að það hafi hætt við álversframkvæmdir af nokkrum ástæðum. Þar á meðal að Landsvirkjun bjóði ekki næga orku á samkeppnishæfu verði.

„Alvaran var ekki jafn mikil og væntingar voru um,“ sagði ráðherrann og benti á að ekki sé búið að tilkynna málið á vefsíðu Alcoa. Slíkt beri fyrirtækinu að gera enda sé það skráð á hlutabréfamarkað.

Hún hvatti þingmenn sem átelja ríkisstjórnina fyrir að hindra framkvæmdirnar að hætta að fylkja sér á bak við eitt fyrirtæki. „Pólitísk fingraför eru ekki á þessu máli,“ sagði Katrín.

Iðnaðarráðherra sagði fimm fyrirtæki eiga í viðræðum um orkukaup við Landsvirkjun vegna væntanlegrar uppbyggingar við Húsavík. Eitt þeirra sé álfyrirtæki sem telur sig geta byggt álver og keypt orku á því verði sem Landsvirkjun býður upp á.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag, að tíu fyrirtæki eigi nú í viðræðum við Landsvirkjun um nýtingu á orku sem í boði verður fyrir norðan.